
Juventus hefur haft samband við Fiorentina til að kanna möguleikann á að fá íslenska landsliðsmanninn Albert Guðmundsson, en svörin voru á þá leið að hann væri ekki til sölu. Ítalskir miðlar greina frá.
Albert hefur verið orðaður frá Fiorentina í þessum mánuði, til að mynda við Roma, en nú gæti Juventus reynt við hann á lokadögum félagaskiptagluggans.
Fiorentina er hins vegar ekki reiðubúið að selja þennan 28 ára gamla Íslending á þessum tímapunkti og telur hann lykilmann í baráttu félagsins fyrir því að halda sér í Serie A. Stjórinn Paolo Vanoli ku vilja byggja sóknarleikinn í gegnum Albert.
Albert er sjálfur sagður vera opinn fyrir því að skipta um félag og spila fyrir Juventus, en félagaskipti milli þessara tveggja liða hafa verið tíð í gegnum árin.