
Rasmus Hojlund hefur opnað sig um brottför sína frá Manchester United og viðurkennt að félagið hafi gert honum ljóst snemma sumars að hann væri ekki í áætlunum fyrir tímabilið.
Daninn, sem er 22 ára, gekk í sumar til liðs við ítölsku meistarana í Napoli á láni eftir að United styrkti sóknarlínuna verulega með komu Matheus Cunha, Benjamin Sesko og Bryan Mbeumo. Það hafði þau áhrif að Hojlund féll neðar í goggunarröð Ruben Amorim.
„United gerði mér það alveg ljóst að ég væri ekki hluti af áætlunum fyrir þetta tímabil. Við vorum ekki í Evrópukeppni og ég er ungur, ég þarf að spila fótbolta,“ segir Hojlund.
Hann segir Napoli hafa sýnt mikinn áhuga og það heillaði. „Um leið og ég heyrði af áhuganum vissi ég að ég vildi bara fara þangað,“ segir Hojlund, sem hefur farið vel af stað á Ítalíu og er kominn með sjö mörk og þrjár stoðsendingar í 19 leikjum.