Þorkell Máni Pétursson, umboðsmaður og stjórnarmaður KSÍ, var gestur Helga Fannars Sigurðssonar í nýjasta þætti af Íþróttavikunni á 433.is.
Hegðun stuðningsmanna Stjörnunnar á áhorfendapöllum á íþróttaviðburðum var til umfjöllunar í vikunni. Voru Garðbæingar sakaðir um niðrandi söngva á fótbolta- og körfuboltaleikjum, þar á meðal um leikmann Tindastóls sem hafði misst af fæðingu barns síns fyrir mikilvægan leik.
Máni er mikill stuðnigsmaður Stjörnunnar og var hann spurður út í þetta í þættinum. Kom hann inn á það að körfuboltastuðningsmenn séu almennt fremur blóðheitir, eins og sjá má á spjalli um deildina á Facebook.
„Þetta er yndislegt fólk. Þetta eru stuðningsmenn og það eru læti í þeim. Það er alltaf talað um körfuboltafjölskylduna, svo fer maður og sér hvernig körfuboltafjölskyldan hagar sér og þetta er eitthvað mesta alkóhólista- og ofbeldissamband sem ég hef séð. Að fara inn á Bónusspjallið, þetta er eins og Útvarp Saga samfélagsmiðla, gjörsamlega ruglað,“ sagði Máni léttur í þættinum.
Varðandi sönginn um þennan leikmann Tindastóls hafði Máni þetta að segja.
„Ég held að Garðbæingar hafi ekki tengt við þetta og fundist þetta eitthvað skrýtið, það sé brandarinn í þessu. Ég minni á að Emil Atlason missti af fyrsta leik í Bestu deild karla þar sem hann var á fæðingardeildinni. Í fyrra missti Jökull Elísabetarson þjálfari liðsins af leik á Akureyri því konan hans var að fæða barn. Ég veit það ekki en er það ekki það sem er verið að gera grín að?
Ég hef alveg þurft að biðjast afsökunar fyrir hönd Silfurskeiðarinnar í gegnum tíðina og menn geta fundið fréttir um það,“ sagði hann að endingu um málið.