
Liverpool hefur sagt upp þjálfara sínum í föstum leikatriðum, Aaron Briggs, vegna dapurs árangurs í þeim hluta leiksins.
Arne Slot hefur ítrekað lýst óánægju sinni með frammistöðu liðsins í föstum leikatriðum, bæði varnar- og sóknarlega. Liverpool hefur fengið á sig tólf mörk eftir föst leikatriði. Það samsvarar 46% allra marka sem liðið hefur fengið á sig. Á sama tíma hafa Englandsmeistararnir aðeins skorað þrjú mörk úr föstum leikatriðum í deildinni, aðeins botnlið Wolves hefur skorað færri.
Briggs, sem áður starfaði hjá Manchester City, gekk til liðs við Liverpool sumarið 2024 sem þjálfari í þróun einstakra leikmanna og tók síðar við ábyrgð á föstum leikatriðum. Hann er sagður hafa unnið samviskusamlega og átt sinn þátt í meistaratitlinum á síðasta tímabili, en vegna vandamála á þessari leiktíð var tekin ákvörðun um að bregðast við. Að sögn félagsins var samið í sátt um starfslok hans.
Liverpool hyggst ráða nýjan þjálfara í hlutverkið síðar. Þangað til munu Slot og aðstoðarþjálfarar hans, Sipke Hulshoff og Giovanni van Bronckhorst, sjá um verkefnið.