
Liverpool ætlar að rifta lánssamningi James McConnell hjá Ajax þar sem að leikmaðurinn hefur fengið lítinn spiltíma í Hollandi.
McConnell, sem útskrifaðist úr akademíu Liverpool árið 2023 og spilaði fyrsta leikinn fyrir aðalliðið í fyrra, fór til Ajax á eins árs láni síðasta sumar eftir að hafa undirritað fimm ára samning við Liverpool. McConnell hefur hins vegar aðeins spilað sjö leiki á síðustu sex mánuðum og verið utan hóps undanfarið.
Samkvæmt Daily Mail er líklegt að McConnell fari aftur til Englands í janúar og fjögur félög í ensku B-deildinni hafa áhuga á að fá hann á láni, West Brom, Derby, Oxford og Swansea.
Það kemur þó einnig til greina að Liverpool haldi hinum 21 árs gamla McConnell hjá sér og hafi hann í kringum aðalliðið á seinni hluta leiktíðar.