
Manchester United hefur mikinn áhuga á Kees Smit, efnilegum miðjumanni AZ Alkmaar, en alls fimm stórlið fylgjast grannt með framgangi hans.
Samkvæmt The Athletic hefur Ruben Amorim mikinn áhuga á að styrkja miðjuna og er Smit, sem er aðeins 19 ára gamall, ofarlega á lista United.
Samkeppnin er þó gríðarleg, en Newcastle í ensku úrvalsdeildinni auk Real Madrid, Barcelona og Borussia Dortmund eru einnig með Hollendinginn á blaði.
AZ Alkmaar hafa ekki í hyggju að selja Smit í janúarglugganum sem er handan við hornið, en skoðar tilboð upp á rúmar 50 milljónir punda í sumar.
Smit hefur spilað 27 leiki á tímabilinu, skorað tvö mörk og lagt upp fimm, auk þess sem hann sló í gegn á EM U-19 ára liða fyrr á árinu.