
Christian Eriksen hefur gagnrýnt stjóra Manchester United, Ruben Amorim, fyrir ummæli sem Portúgalinn lét falla á síðasta tímabili og vöktu mikla athygli.
Amorim sagði í janúar, á erfiðu tímabili hjá United, að liðið væri kannski versta lið í sögu Manchester United. Féllu ummælin í grýttan jarðveg meðal leikmanna, segir Eriksen.
„Þetta hjálpaði ekki neitt. Sumt er hægt að segja innan hópsins, en ekki opinberlega. Þetta setti aukinn þrýsting á leikmenn sem voru þegar að reyna sitt besta,“ segir Daninn.
Eriksen lék 35 leiki á síðasta tímabili, sem var hans fjórða og síðasta hjá United. Í maí var staðfest að hann myndi yfirgefa félagið eftir tímabilið og kvaddi hann með stæl þegar hann skoraði úr vítaspyrnu í 2-0 sigri á Aston Villa í lokaumferðinni.
Eftir dvölina á Old Trafford samdi Eriksen við Wolfsburg í Þýskalandi, hvar hann er nú.