

Það eru einhverjir sem muna eftir manni sem ber nafnið Phil Brown en hann var um tíma stjóri í ensku úrvalsdeildinni.
Brown er í dag þjálfari Peterborough Sports á Englandi en það lið leikur í sjöttu efstu deild og er í fallbaráttu í dag.
Brown var þjálfari Hull City frá 2006 til 2010 og hefur einnig þjálfað lið eins og Derby, Preston og Bolton.
Englendingurinn er afskaplega ósáttur með eigin leikmenn og lét allt flakka eftir 4-0 tap gegn Scarborough í síðustu umferð.
,,Leikmenn spila ekki svona illa nema þeir vilji ekki spila fyrir sinn þjálfara,“ sagði Brown.
,,Það voru þrír eða fjórir leikmenn inni á vellinum sem voru að spila fyrir sjálfan sig. Fyrri hálfleikurinn var einfaldlega viðureign á milli liða sem höfðu ekki unnið í langan tíma.“
,,Það var ekkert sjálfstraust til staðar og ég reyndi að ná til leikmanna í hálfleik og sagði að fyrsta markið væri mikilvægast og það reyndist rétt en að tapa með fjórum mörkum..?“
,,Við hrundum eftir fyrsta markið og ég get ekki sætt mig við það, það skiptir engu máli hvort ég sé hjá Peterborough Sports eða Hull.“