
Joshua Zirkzee stefnir á brottför frá Manchester United í janúarglugganum, þrátt fyrir að Ruben Amorim, knattspyrnustjóri félagsins, vilji halda honum áfram á Old Trafford.
Samkvæmt ítalska miðlinum La Gazzetta dello Sport hefur Zirkzee þegar gefið Roma grænt ljós eftir jákvæðar viðræður við íþróttastjórann Ricky Massara og þjálfarann Gian Piero Gasperini.
Í fréttinni kemur fram að Gasperini hafi fullvissað Hollendinginn um að hann passi fullkomlega inn í 3-4-2-1 leikkerfi liðsins, sem hafi vegið þungt í ákvörðun hans.
Zirkzee, sem er 24 ára, er sagður ósáttur við skort á reglulegum spiltíma hjá United og vill komast annað til að eiga meiri möguleika á að fara með hollenska landsliðinu á HM næsta sumar.
Hugsanlegt er að United bíði með að sleppa Zirkzee þar til Amad Diallo og Bryan Mbuemo eru komnir aftur úr Afríkukeppninni eftir áramót.