

Landsliðsþjálfari Noregs, Ståle Solbakken, nýtti fjölmiðlafundinn fyrir úrslitaleikinn gegn Ítalíu á morgun til að senda kveðju til Åge Hareide, sem glímir nú við alvarleg veikindi.
Hareide hætti með íslenska landsliðið á síðasta ári.
„Ég vil senda kveðju til Åge Hareide sem berst sína eigin baráttu,“ sagði Solbakken.
„Hann er einn stærsti leikmaður Noregs, með stóran þjálfaraferil í Danmörku, Svíþjóð og Noregi, og einn fárra Norðmanna með HM-reynslu sem þjálfari.“
Hareide tók Danmörku á HM árið 2018 og átti farsælan feril sem leikmaður hjá Manchester City og Norwich.
Samkvæmt VG er hann nú alvarlega veikur, en hann er staddur í Mílanó ásamt Kjell Inge Røkke til að fylgjast með leiknum.
„Kannski sjáum við hann í búningsklefanum á morgun. Ég óska honum allrar hamingju í þeirri baráttu sem hann stendur í,“ bætti Solbakken við.
Hareide hefur starfað sem sérfræðingur hjá NRK frá 2022.