

Knattspyrnudeild KA hefur borist góður liðsstyrkur fyrir komandi sumar en Diego Montiel skrifaði í dag undir tveggja ára samning við félagið. Diego er 30 ára gamall miðjumaður sem gengur í raðir KA frá Bikarmeisturum Vestra.
Montiel sem kemur frá Svíþjóð gekk í raðir Vestra fyrir nýliðið sumar og var í algjöru lykilhlutverki er liðið hampaði Bikarmeistaratitlinum en hann lék alla leiki félagsins í sumar og gerði meðal annars fimm mörk í Bestudeildinni.
Fyrir komu sína vestur lék hann með Varberg í sænsku B-deildinni en þar áður spilaði hann með Vendsyssel og Velje í Danmörku, Beerschot í Belgíu, og sænsku liðunum Örgryte, Gefle, Sirius, Dalkurd, Västerås og Brommapojkarna.
Þar að auki á Montiel leiki með sænska U17 ára landsliðinu og þar á meðal vináttulandsleik gegn Íslandi árið 2014.
„Það eru ákaflega jákvæðar fréttir að fá Montiel í okkar raðir enda hefur hann sýnt gæði sín í Bestudeildinni og ætlumst við til mikils af honum. Bjóðum hann hjartanlega velkominn norður og hlökkum til að sjá hann í gula og bláa búningnum,“ segir á vef KA.