
Dermot Gallagher, fyrrverandi dómari í ensku úrvalsdeildinni, hefur tjáð sig um umdeildan VAR-dóm þegar Virgil van Dijk skoraði fyrir Liverpool gegn Manchester City í ensku úrvalsdeildinni í gær.
Markið var dæmt af vegna rangstöðu Andy Robertson, sem var talinn trufla markvörðinn Gianluigi Donnarumma. Aðstoðardómari veifaði flagginu og VAR staðfesti ákvörðunina.
„Þetta er huglægt mat og grátt svæði. Fólk túlkar þetta á mismunandi vegu, og það eru engar fastar reglur þegar kemur að þessu,“ segir Gallagher, sem kemur reglulega fyrir í sjónvarpi og ræðir umdeildar ákvarðanir dómara í ensku úrvalsdeildinni.
„Það er ekki rétt að kenna dómurum, eins og Chris Kavanagh, um ákvörðunina þar sem hún er tekin úti á velli af aðstoðardómara.“
City vann leikinn 3-0 og er Liverpool nú vel á eftir þeim og Arsenal í baráttunni um Englandsmeistaratitilinn.