

Lúxuseign hins látna Sven-Göran Eriksson, fyrrum landsliðsþjálfara Englands, hefur verið seld á verulegu undirverði þar sem fjölskylda hans reynir að greiða niður miklar skuldir hans.
Húsið, sjö svefnherbergja setur við vatn í Torsby í Värmland í Svíþjóð, var upphaflega sett á sölu fyrir tvær milljónir punda eftir andlát hans úr briskrabbameini.
Fjölskyldan neyddist þó til að lækka verðið um 400 þúsund pund til að fá tilboð, og var húsið síðan keypt af nafnlausri athafnakonu fyrir að minnsta kosti 1,3 milljónir punda.
Eriksson keypti eignina árið 2002 fyrir um 4,5 milljónir punda, sem þýðir að dánarbúið tapar um það bil 3 milljónum punda á sölunni.
Fjölskylda hans, þar á meðal sambýliskonan Yaniseth Alcides og börnin Lina og Johan, mun hins vegar ekki fá neitt út úr söluverðinu þar sem Eriksson lést með verulegar skuldir.
Hann skuldaði breska skattyfirvaldinu um 7,4 milljónir punda auk annara skuldbindinga, meðal annars eftir að hafa látið gabba sig í fjárfestingar sem svindlarar sáu um.
Í mars seldi fjölskyldan muni hans, þar á meðal Armani-jakkaföt sem hann bar á HM 2006, fyrir 140 þúsund pund. Þrátt fyrir að hafa þénað tugi milljóna á 42 ára þjálfaraferli var dánarbúi hans lokað með 620 milljónum króna í mínus.