
Arne Slot, stjóri Liverpool, greindi frá því eftir 0-3 tap liðsins gegn Crystal Palace í enska deildabikarnum að fyrirliðinn Virgil van Dijk, sem og Ibrahima Konate, hafi sýnt af sér mikla leiðtogahæfni með því að hughreysta ungan samherja.
Það voru gestirnir frá suður-London sem stjórnuðu leiknum í rigningunni á Anfield. Ismaila Sarr skoraði tvö mörk í fyrri hálfleik og kom Palace í þægilega stöðu. Liverpool átti aðeins eitt skot á markið í leiknum, á meðan gestirnir áttu átta.
Á 79. mínútu varð Liverpool fyrir áfalli þegar 18 ára gamli varnarmaðurinn Amara Nallo fékk rautt spjald fyrir brot á Justin Devenny. Þetta var aðeins annar leikur Nallo fyrir aðalliðið og í bæði skiptin hefur hann verið rekinn af velli, samtals eftir 16 mínútur á vellinum.
Til að bæta gráu ofan á svart bætti Yeremy Pino við þriðja marki Palace undir lokin.
Eftir leikinn sagði Arne Slot að hann hefði ekki þurft að segja mikið við Nallo, þar sem van Dijk og Ibrahima Konate hefðu þegar tekið málið að sér.
„Ég þurfti ekki að segja mikið. Ibou og Virgil fóru strax til hans og töluðu við hann. Það segir mér að þeir séu frábærir manneskjur,“ sagði Slot.