
Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari var að vonum ánægður með sitt lið eftir 3-0 sigur á Norður-Írum í dag. Stelpurnar okkar unnu samanlagt 5-0 og halda sæti sínu í A-deild Þjóðadeildarinnar þægilega.
„Ég er ánægður. Mér fannst þetta vera fagmannleg frammistaða. Fyrri hálfleikur var flottur, kannski opnuðum við þær ekkert rosalega mikið en þær komust ekki mikið áfram. Byrjun seinni hálfleiks var smá óörygi aftast en eftir 3-4 mínútur tókum við leikinn yfir og stýrðum þessu hægt og rólega heim,“ sagði Þorsteinn eftir leik.
Það var langur aðdragandi að leiknum og mikil óvissa sömuleiðis. Átti hann að fara fram í gær en var það ekki hægt vegna snjókomunnar. Var hann því spilaður á heimavelli Þróttar tæpum sólarhring síðar.
„Í gærmorgun tókum við þá afstöðu að við værum bara að fara að spila fótboltaleik og hvernig sem hann yrði spilaður yrðum við klár. Svo fengum við fréttirnar um að leikurinn yrði ekki í gær og þá tókum við smá ballet í Balletskóla Eddu Scheving. Það var mjög sérstakt að vera í þessum aðstæðum, vita ekki hvort leikurinn færi fram þennan dag eða hinn,“ sagði Þorsteinn um það.
Það er óhætt að segja að íslenska liðið hafi sýnt mikla yfirburði í einvíginu við Norður-Íra.
„Við höfum ekki spilað á móti andstæðingi af þessum styrkleika í tvö og hálft ár. Við vissum fyrirfram að þetta yrði öðruvísi einvígi en við höfum spilað undanfarin ár. Við gerðum okkur grein fyrir að við þyrftum að halda í boltann og stýra leiknum. Í grunninn var þetta ákveðið próf á okkur í því.“
Ítarlegt viðtal við Þorstein er í spilaranum.