

Fjallað er um hina miklu snjókomu sem var á höfuðborgarsvæðinu í gær í enska götublaðinu The Sun og talað um að aldrei hafi snjóað jafn mikið í október í höfuðborg Íslands.
Umfjöllunin er í kringum landsleik Íslands og Norður-Írlands sem átti að fara fram í gær, um er að ræða seinni leik liðanna í Þjóðadeild kvenna.

Leikurinn gat ekki farið fram á Laugardalsvelli í gær þar sem völlurinn fór á kaf, spilað verður á gervigrasi Þróttar í dag sökum fannfergis.
„Ástæðan er fordæmalaus snjókoma sem hefur gengið yfir höfuðborgarsvæðið. Reykjavík hefur orðið fyrir metsnjókomu á síðustu 15 klukkustundum og sums staðar er spáð allt að 50 sentímetra snjóalögum á innan við sólarhring,“ segir í umfjöllun The Sun.
Teymi UEFA og IFA yfirfóru aðstæður á leikdag og töldu að ekki væri mögulegt að tryggja öruggan leik, bæði vegna ástands vallarins og færðar í kringum leikvanginn.