
„Heilt yfir var þetta vel spilaður leikur. Þetta var auðvitað svolítið skrýtið út af frestuninni og svona en við komum inn í þetta með mikilli fagmennsku, vorum klárar í verkefnið,“ sagði landsliðsfyrirliðinn Glódís Perla Viggósdóttir eftir öruggan 3-0 sigur Íslands á Norður-Írlandi í kvöld.
Leiknum var frestað um tæpan sólarhring og færður frá Laugardalsvelli á Þróttarvöll við hliðina á.
„Við höfum spilað í alls konar veðri og viðvörunum en leikjunum hefur aldrei verið frestað. Þetta var nýtt, við sögðum allar að dagurinn í gær hafi verið lengsti dagur lífs okkar en það var gott að klára þetta.
Auðvitað hefði ég viljað spila á Laugardalsvelli. Fyrst það er búið að eyða svona miklum peningum í að skipta um gras er svolítið skrýtið að það sé ekki hægt að nota völlinn í fyrsta sinn sem kemur smá vont veður,“ sagði Glódís og hló, en ráðist var í miklar framkvæmdir á Laugardalsvelli síðasta vetur.
Viðtalið í heild er í spilaranum.