
Íslenska kvennalandsliðið heldur sæti sínu í A-deild Þjóðadeildarinnar. Þetta varð ljóst með þægilegum 3-0 sigri á Norður-Írlandi í seinni leik liðanna í umspili í kvöld.
Fyrri leiknum lauk með 0-2 sigri Íslands ytra og fór Sveindís Jane Jónsdóttir því langt með að tryggja áframhaldandi veru í deildinni með marki eftir rúman hálftíma leik.
Hlín Eiríksdóttir tvöfaldaði forystuna eftir tæpan stundarfjórðung af seinni hálfleiks og Emilía Kiær Ásgeirsdóttir innsiglaði 3-0 sigur með sínu fyrsta landsliðsmarki af vítapunktinum á 73. mínútu.
Ísland vinnur því samanlagt 5-0 og verður áfram í A-deild. Þar með jók liðið möguleika sína á að komast inn á HM 2027.
Cecilía Rán Rúnarsdóttir – 6
Mun ekki eiga mikið rólegri leiki, en átökin fóru nær öll fram hinum megin á vellinum í dag.
Guðrún Arnardóttir – 6
Skilaði sínu í hægri bakverðinum.
Glódís Perla Viggósdóttir (46′) – 6
Afar þægileg vakt hjá fyrirliðanum, áður en hún fór af velli í hálfleik.
Ingibjörg Sigurðardóttir – 6
Það var lítið að gera hjá miðvarðaparinu sem gerði þó sitt.
Sædís Rún Heiðarsdóttir – 7
Er í nýju hlutverki þar sem hún kemur úr bakverðinum og inn á miðjuna í uppspilinu og það gaf góða raun.
Hildur Antonsdóttir (74′) – 8 – Maður leiksins
Flottur leikur varnarlega og gerði sig oft gildandi sóknarlega einnig. Lagði upp mark Hlínar er hún flikkaði boltanum á hana.
Alexandra Jóhannsdóttir – 6
Vann vel fyrir liðið og stóð sína plikt eins og venjulega.
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir – 8
Tók leikinn oft í eigin hendur í fyrri hálfleik og reyndi að sprengja hann upp þegar lítið var að frétta. Gerir svo afar vel í að vinna vítið sem Ísland skorar þriðja mark sitt úr. Góður leikur.
Sveindís Jane Jónsdóttir (83′) – 7
Skorar mark og á stóran þátt í öðru með löngu innkasti sínu.
Hlín Eiríksdóttir (66′) – 8
Mjög góður leikur hjá Hlín sem olli miklum usla á vinstri kantinum. Átti hún risastóran þátt í fyrsta markinu og skoraði annað markið.
Sandra María Jessen (66′) – 6
Gerði vel í að hjálpa boltanum áleiðis á Sveindísi í fyrsta marki Íslands. Maður hefði alveg viljað sjá hana skora úr dauðafæri sem hún fékk snemma leiks.
Varamenn
Arna Eiríksdóttir (46′) – 6
Emilía Kiær Ásgeirsdóttir (66′) – 7
Diljá Ýr Zomers (66′) – 6
Katla Tryggvadóttir (74′) – 6
Aðrar spiluðu of lítið til að fá einkunn