
Það eru sögusagnir á Englandi um að Tottenham Hotspur og West Ham United séu að íhuga að gera umdeildan samning við fyrrum framherja Manchester United, Mason Greenwood, sem hefur verið í miklu stuði með Marseille í Frakklandi.
Greenwood yfirgaf Old Trafford í september 2023 eftir að ákærur um alvarlegt ofbeldi gegn kærustu hans voru felldar niður. Hann gekk til liðs við Getafe á láni áður en hann var seldur til Marseille sumarið 2024 fyrir 26,6 milljónir punda.
Framherjinn hefur endurvakið feril sinn í Frakklandi og átti stórkostlegt síðasta tímabil, skoraði 21 mark og átii sex stoðsendingar í deildinni. Hann varð þar með markahæstur ásamt Ousmane Dembele hjá PSG og hjálpaði Marseille að tryggja sér sæti í Meistaradeildinni.
Í byrjun nýs tímabils hefur hann haldið áfram að skora og er kominn með átta mörk. Tottenham og West Ham eru nú að skoða möguleikann á að fá hann heim til Englands næsta sumar.
Það kemur þó fram í fréttum á Englandi að bæði félögin þurfi að gera upp við sig hvort þau séu klár í fjölmiðlafárið sem myndi fylgja svo umdeildum skiptum.
Atletico Madrid, Barcelona og félög í Sádi-Arabíu hafa einnig verið nefndir sem hugsanlegir næstu áfangastaðir Greenwood.