

Stuðningsmenn á Englandi eru margir hverjir brjálaðir eftir fregnir af því að aðeins einn leikur verði leikinn í ensku úrvalsdeildinni á annan í jólum í ár, dag sem lengi hefur verið einn af hápunktum tímabilsins.
Eins og fjallað hefur verið um í enskum fjölmiðlum er líklegt að Manchester United og Newcastle mætist á Old Trafford þann 26. desember, en engin önnur viðureign í úrvalsdeildinni fari fram þann dag.
Á samfélagsmiðlum hafa stuðningsmenn brugðist harkalega við og einhverjir saka forráðamenn deildarinnar um að stela jólahefðinni eða eyðileggja jólin fyrir sér.
„Annar í jólum verður aldrei sá sami aftur!“ skrifaði einn netverji og margir tóku í svipaðan streng.
Ástæða breytingarinnar er sögð felast í þéttri leikjadagskrá, þar sem stækkun Evrópukeppna og ákvörðun enska knattspyrnusambandsinsum að færa enska bikarinn alfarið á helgar hafa þrengt að úrvalsdeildinni.
Samkvæmt fréttum verður annar í jólum eins og venjulegur föstudagur, þar sem aðeins einn leikur verður, en leikið verður áfram á laugardegi, sunnudegi og mánudegi til að uppfylla sjónvarpssamninga.
Á meðan munu deildirnar þrjár fyrir neðan halda í hefðina og spila heila umferð á annan í jólum.