Matthías Vilhjálmsson tilkynnti í gær að hann væri að leggja skóna á hilluna eftir lokaumferð Bestu deildarinnar á laugardag, þar sem hann mun hampa Íslandsmeistaratitlinum með Víkingi. Hann er nú á leið í nýtt hlutverk hjá félaginu.
Matthías hefur átt glæsilegan feril hér heima og í Noregi. Nú tekur við nýr kafli þar sem hann mun þjálfa 2. og 3. flokk karla ásamt því að sinna afreksþjálfun og halda utan um þróun efnilegra leikmanna.
Tilkynning Víkings
Kæru Víkingar. Knattspyrnudeild Víkings tilkynnir með stolti að Matthías Vilhjálmsson er kominn í nýtt hlutverk hjá félaginu en hann mun þjálfa 2. og 3. flokk karla ásamt því að sinna afreksþjálfun og halda utan um þróun efnilegra leikmanna.
Með því að fá Matta í þjálfarahópinn fær félagið að njóta góðs af ómetanlegri reynslu og þekkingu hans ásamt því að iðkendur, undir hans leiðsögn, munu læra um vinnusemi, aga, auðmýkt, það að gefast aldrei upp og hvað það er að vera sigurvegari.
Eins og kunnugt er mun Matthías leggja skóna á hilluna um helgina en framtíðin er heldur betur björt, framtíðin er Hamingja.