Halldór Árnason var rekinn úr starfi sem þjálfari Breiðabliks í gær, aðeins nokkrum mánuðum eftir að hafa skrifað undir nýjan samning við félagið.
Framlengt var við Halldór í ágúst út tímabilið 2028. „Það er mikil ánægja og gleði með störf hans og þann metnað sem Halldór hefur fyrir meistaraflokki karla og félaginu í heild sinni. Að tryggja áframhaldandi störf hans hjá Breiðabliki er mikilvægur hluti af áframhaldandi framgangi og uppbyggingu Knattspyrnudeildar Breiðabliks,“ sagði í tilkynningu Breiðabliks.
Það komst í fréttirnar nokkru síðar að ekki voru allir með í ráðum þegar framlengt var við Halldór.
Samkvæmt heimildum 433.is var stærsta breytingin í samningi Halldórs að uppsagnarfrestur hans fór úr því að vera þrír mánuðir eins og á almennum vinnumarkaði í það að vera tólf mánuðir.
Nú þegar Halldóri hefur verið sagt upp er því ljóst að félagið þarf að borga honum tólf mánaðar uppsagnarfrest, aðeins örfáum mánuðum eftir að meistaraflokksráð félagsins ákvað að framlengja samning hans.