Það sauð upp úr í seinni hálfleik leiks KR og ÍBV í Bestu deild karla í fyrradag og Þorlákur Árnason, þjálfari síðarnefnda liðsins, fékk að líta rauða spjaldið.
Fékk hann spjaldið fyrir mótmæli en komu þau í kjölfar orðaskipta milli hans og Guðmundar Andra Tryggvasonar, leikmanns KR. Eftir að hafa fengið að líta rauða spjaldið spurði Þorlákur fjórða dómarann hvort hann vissi hvað Guðmundur hafi sagt við hann.
Þorlákur vildi ekki tjá sig um ummæli Guðmundar en sparkspekingurinn Kristján Óli Sigurðsson sagði frá því fram á samfélagsmiðlum að þau hafi verið: „Þegiðu sköllótta helvítið þitt.“
Þetta mál var til umræðu í Innkastinu á Fótbolta.net og virðist sem svo að orðaskiptum Þorláks og Guðmundar hafi ekki lokið með rauða spjaldinu á hliðarlínunni.
„Ég heyrði að Guðmundur Andri og Láki hafi síðan átt í orðaskiptum eftir að viðtölin voru tekin á viðtalasvæðinu,“ sagði Elvar Geir Magnússon, ritstjóri Fótbolta.net, í þættinum.
Stefán Pálsson sagnfræðingur var gestur þáttarins og var hann ánægður með hitann í mönnum. „Ég er svo ánægður með þetta, að þjálfari liðs sem hefur ekki að neinu að keppa sé að fá rautt spjald fyrir kjaft.“
Elvar benti svo á að goðsögnin Tryggvi Guðmundsson er faðir Guðmundar og mun hann ræða við Þorlák eftir lokaleik ÍBV í Bestu deildinni á laugardag.
„Tryggvi Guðmundsson er auðvitað pabbi Guðmundar Andra og er nauðasköllóttur. Hann er að fara að taka viðtal við Láka eftir lokaleikinn, þar sem hann skrifar auðvitað fyrir Fótbolta.net,“ sagði Elvar og hló.