Liverpool hefur orðið fyrir áfalli í aðdraganda leiksins gegn Eintracht Frankfurt, þar sem Ryan Gravenberch sat hjá á æfingum liðsins á þriðjudag.
Hollendingurinn meiddist á ökkla í 2-1 tapinu gegn Manchester United um helgina og virðist ekki ná leiknum í Þýskalandi.
Gravenberch, sem er 23 ára, meiddist snemma í seinni hálfleik þegar hann fór í tæklingu við Bryan Mbeumo. Hann reyndi að halda leik áfram en þurfti að fara af velli eftir rúmlega klukkustund.
Arne Slot, knattspyrnustjóri Liverpool, staðfesti eftir leikinn að Gravenberch hefði meiðst og yrði metinn nánar fyrir ferðina til Þýskalands.
„Ég tók hann af velli vegna þess að hann snéri upp á ökklann,“ sagði Slot. „Er þetta áhyggjuefni? Við þurfum að sjá hvernig staðan er á morgun, en við spilum aftur á miðvikudag.“
Með því að sleppa æfingunni á þriðjudag virðist þó ljóst að Gravenberch verði ekki með gegn Frankfurt. Það er áfall fyrir Liverpool sem vill endurheimta sjálfstraust.