Sögusagnir eru úr Kópavoginum að Halldór Árnason verði látinn fara úr starfi þjálfara Breiðabliks í dag.
Þetta kemur til að mynda fram í Þungavigtinni og segir Fótbolti.net þá Blikar hafi hlerað Ólaf Inga Skúlason, þjálfara U-21 árs landsliðs karla, um að taka við stöðunni ef ráðist verður í breytingar.
Það hefur lítið gengið hjá Íslandsmeistaraliði Breiðabliks í sumar og er útlit fyrir að liðið missi af Evrópusæti eftir enn eitt tapið, gegn Víkingi um helgina.
Halldór fékk þó nýjan langtímasamning fyrir rúmum tveimur mánuðum síðan. Sagan segir að þar hafi ekki allir innan Breiðabliks verið sammála um að honum ætti að vera boðinn nýr samningur og að ráðist hafi verið í að skrifa undir vegna áhuga annarra félaga á Halldóri.