Wayne Rooney, goðsögn Manchester United, segir að Arne Slot verði að setja Alexander Isak á bekkinn eftir 2-1 tap Liverpool gegn United á Anfield um helgina.
Tapið var það fjórða í röð hjá Liverpool og í fyrsta sinn sem United vinnur á Anfield síðan í janúar 2016.
Þó margir stuðningsmenn Liverpool hafi gagnrýnt Mohamed Salah fyrir frammistöðuna telur Rooney að það sé Isak sem eigi mesta sök á slakri spilamennsku liðsins.
„Ég myndi ekki spila Isak. Hann hefur ekki litið út fyrir að vera tilbúinn síðan hann kom frá Newcastle,“ sagði Rooney.
„Hann fékk ekkert undirbúningstímabil. Það er svo mikilvægt. Þegar Newcastle var að æfa sat hann líklega heima í símanum við umboðsmanninn sinn sex tíma á dag að reyna að klára félagaskiptin.“
Rooney bætti við að Svíinn væri einfaldlega ekki í formi.
„Hann gæti hafa æft sjálfur, en það er að kosta hann núna. Miðað við frammistöðuna á hann ekki að vera fyrir framan Ekitike í röðinni.“
Isak kom til Liverpool í september fyrir 125 milljónir punda, dýrastur í sögu enska boltans. Hann hefur enn ekki skorað í úrvalsdeildinni, en eina mark hans kom í 2-1 sigri gegn Southampton í deildarbikarnum.
Hugo Ekitike, sem kom frá Frankfurt fyrir 79 milljónir punda, hefur hins vegar skorað fimm mörk í 11 leikjum, þar af þrjú í úrvalsdeildinni.