Halldór Árnason hefur verið látinn fara frá Breiðabliki og tekur Ólafur Ingi Skúlason við starfi hans sem þjálfari karlaliðsins.
Síðasti leikur Halldórs við stjórnvölinn var í tapi gegn Víkingi um helgina, en eftir úrslitin er ólíklegt að Breiðablik nái Evrópusæti, sem er ekki viðunandi árangur Íslandsmeistaraliðsins frá því í fyrra.
Halldór tók við Breiðabliki 2023 eftir að hafa verið aðstoðarmaður Óskars Hrafns Þorvaldssonar. Gerði hann liðið að Íslandsmeistara á sínu fyrsta tímabili sem aðalþjálfari í fyrra og kom liðinu svo í Sambandsdeildina í ár.
Ólafur Ingi sagði upp sem þjálfari U-21 árs landsliðs karla í dag til að taka við starfinu hjá Breiðabliki. Stýrir hann liðinu gegn KuPS frá Finnlandi í Sambandsdeildinni á fimmtudag.
Tilkynning Breiðabliks
Breytingar hjá meistaraflokki karla.
Knattspyrnudeild Breiðabliks hefur gengið frá starfslokum við Halldór Árnason þjálfara meistaraflokks karla. Halldór hóf störf hjá Breiðabliki í október 2019 sem aðstoðarþjálfari og tók við sem aðalþjálfari haustið 2023. Á þessum sex árum hefur Halldór verið risastór hluti af velgengni og uppgangi félagsins. Undir hans stjórn varð félagið Íslandsmeistari 2024 og tryggði sér þátttöku í Sambandsdeild Evrópu 2025.
Hann átti einnig stóran þátt í Íslandsmeistaratitlinum 2022 og þegar Breiðablik komst fyrst íslenskra karlaliða í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar 2023.
Halldór hefur sinnt sínum störfum af miklum metnaði og dugnaði, hann er félagsmaður góður og unnið ómetanlegt starf fyrir Breiðablik og stuðningsmenn. Undir hans stjórn hafa verið margir eftirminnilegir leikir og góðar stundir. Við óskum Halldóri og hans fólki alls hins besta og velfarnaðar í framtíðinni.
Ólafur Ingi Skúlason hefur verið ráðinn þjálfari meistaraflokks karla hjá Breiðabliki. Ólafur hefur undanfarin ár þjálfaði yngri landslið Íslands og var áður í þjálfarateymi Fylkis. Hann var atvinnumaður um 15 ára skeið, meðal annars í Englandi, Svíþjóð og Tyrklandi.
Knattspyrnudeild Breiðabliks býður Ólaf Inga Skúlason velkominn til starfa.