Ensku stórliðin Arsenal og Manchester City, spænsku risarnir Barcelona og Real Madrid og Inter Miami vestan hafs eru öll að fylgjast með hinum 17 ára gamla Gilberto Mora.
Mora, sem er miðjumaður frá Mexíkó, sprakk út með aðalliði Club Tijuana í fyrra og hefur hann þá vakið athygli með U-20 ára liði þjóðar sinnar, auk þess sem hann lék með A-landsliðinu er það vann Gullbikarinn í sumar.
Áðurnefnd stórlið sjá hann sem stjörnu fyrir framtíðina, en hann má þó ekki skrifa undir í Evrópu fyrr en næsta haust, þegar hann verður 18 ára gamall. Inter Miami vonast til að Lionel Messi geti hjálpað til við að lokka hann þangað.
Mora var aðeins 15 ára gamall þegar hann lék sinn fyrsta leik í efstu deild Mexíkó. Er hann þá á meðal yngstu markaskorara deildarinnar.