Manchester United íhuga nú að framlengja samning Casemiro, en aðeins ef Brasilíumaðurinn samþykkir lækkun á launum sínum.
Forráðamenn félagsins vilja áfram draga úr launakostnaði eftir brottför fjölda hálaunaðra leikmanna undanfarið. Casemiro er á gríðarlega háum launum, eða um 375 þúsund pundum á viku.
United hefur möguleika á að framlengja samning hans um eitt ár, út júní 2027, og hefur Casemiro verið mikilvægur leikmaður eftir að Ruben Amorim tók við.
Félagið stefnir á enduruppbyggingu miðjunnar næsta sumar og er búist við að a.m.k. einn leikmaður verði keyptur inn. Framtíð Kobbie Mainoo er í óvissu og Manuel Ugarte hefur ekki náð að festa sig í sessi, sem gerir Casemiro enn að lykilmanni á miðjunni.
Brasilíski miðjumaðurinn var í eldlínunni með landsliði sínu í landsleikjahlénu ásamt félaga sínum frá United, Mathues Cunha. Þeir tóku báðir þátt í 5-0 sigri á Suður-Kóreu og síðan í ótrúlegu 3-2 tapi gegn Japan á þriðjudag.
Casemiro lék allar 90 mínúturnar í báðum leikjum og gæti þreytan haft áhrif á möguleika hans til að byrja stórleikinn gegn Liverpool á Anfield á sunnudag.