Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hótaði á þriðjudag að flytja leiki á HM í knattspyrnu sem áætlað er að fari fram í úthverfi Boston næsta sumar. Ástæðan, að sögn hans, er að hlutar borgarinnar hafi verið tekin yfir af óeirðum.
Foxborough, heimavöllur NFL-liðsins New England Patriots er í um 50 kílómetra fjarlægð frá Boston, er meðal borga sem eiga að hýsa leiki þegar Bandaríkin, Mexíkó og Kanada halda HM 2026.
Trump, sem ræddi málið á fundi með Argentínuforseta Javier Milei, gagnrýndi borgarstjórann Michelle Wu og kallaði hana „snjalla en róttæka vinstrimanneskju“.
Hann sagði: „Við gætum tekið leikina í burtu. Ég elska fólk í Boston, en borgarstjórinn er ekki góður. Þeir eru að taka yfir hluta borgarinnar, en við gætum fengið hana til baka á tveimur sekúndum.“
Hafa ummæli Trumps vakið mikla athygli þar sem FIFA ræður alfarið yfir framkvæmd HM. Samkvæmt FIFA eru 11 bandarískar borgir þegar samningsbundnar við sambandið, þar á meðal New York, Los Angeles og San Francisco, og ekki er mögulegt að breyta skipulaginu með svo stuttum fyrirvara.
Skrifstofa borgarstjórans svaraði ekki beint ummælum Trumps en sendi frá sér yfirlýsingu: „Boston er heiðruð og spennt að hýsa Heimsmeistaramót í fótbolta og hlakkar til að taka á móti aðdáendum víðs vegar að úr heiminum í þessari fallegu borg, vöggu frelsisins og meistara.“