Íslenska kvennalandsliðið mætir Norður-Írlandi í umspili Þjóðadeildarinnar í næstu viku. Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari segir íslenska liðið sterkara en að full ástæða sé til að taka andstæðinginn alvarlega.
Takist Íslandi að leggja Norður-Írland að velli heldur liðið sæti sínu í A-deild. Ef viðureignin tapast fellur liðið í B-deild. Mikilvægt er að halda sér í A-deild upp á að komast í væna stöðu fyrir undankeppni HM.
„Þetta lið hefur farið á lokamót. Þetta eru leikmenn sem eru að spila í næstefstu deild á Englandi og bestu liðunum í Skotlandi aðallega,“ sagði Þorsteinn um andstæðinginn á blaðamannafundi í dag.
„Þetta er mjög skipulagt og varnarsinnað lið. Við erum klárlega sterkari en þú þarft að bera virðingu fyrir andstæðingnum fara á fullum krafti í það sem þú ert að gera. Það ætlum við að gera og við ætlum í leikina til að vinna.“
Fyrri leikurinn fer fram ytra 24. október og seinni leikurinn hér heima fjórum dögum síðar.