Gylfi Þór Sigurðsson, besti landsliðsmaður í sögu Íslands, varð Íslandsmeistari með Víking fyrir rúmri viku síðan. Hann segir pressuna sem hann setti á sjálfan sig hafa verið þess virði og að síðustu dagar hafi verið ótrúlega skemmtilegir. Gylfi yfirgaf Val í febrúar með nokkrum látum, hann vildi burt og Víkingar voru reiðubúnir að borga metfé fyrir Gylfa. Hann stendur nú uppi sem Íslandsmeistari og gerir upp tímabilið í ítarlegu viðtali við 433.is.
Smelltu hér til að lesa ítarlegt viðtal við Gylfa:
Sölvi Geir Ottesen stýrði Víkingi þetta sumarið en þetta var hans fyrsta tímabil sem þjálfari liðsins. Gylfi hrósar vinnubrögðum Sölva og þjálfarateymi Víkings.
„Mjög fínt, frábært. Mjög góðir allt þjálfarateymið, mjög rólegir heilt yfir,“ sagði Gylfi við 433.is um þjálfara Víkings.
Hann segir teymið hafa gert vel þegar eitthvað bjátaði á að fara ekki á taugum. „Á tímabili þar sem þeir eru að stíga sín fyrstu spor, Sölvi sem aðalþjálfari hefðu þeir getað farið á taugum og leitað eftir galdralausn. Hann trúði á það sem hann var að byggja upp, hann var rólegur. Hann lét lausnirnar koma til sín, þeir eiga mikið hrós skilið að fara ekki í það að breyta einhverju og öllu þegar við vorum ekki á toppnum. Þeir gerðu mjög vel.“
Gylfi sem reynslumesti leikmaður Víkings ræddi mikið við Sölva en skiptir sér ekki af hlutunum.
„Við ræddum alveg saman um hitt og þetta, ég er leikmaður og er ekki að fara taka eitthvað fyrir. Segja honum að gera hitt eða þetta, það hefði bara flækt hlutina.“
Eitt atvik kom upp í sumar þegar Sölvi var gagnrýndur fyrir það að taka Gylfa af velli í leik gegn Breiðablik. Blikar voru þá manni færri og Víkingur með alla stjórn á leiknum, það breyttist þegar Gylfi var tekinn af velli og Blikar jöfnuðu leikinn.
„Auðvitað langaði manni að spila áfram, ég var á gulu spjaldi. Sölvi sagði það strax við mig að þetta væri út af spjaldinu, hann mat það þannig að við myndum halda þetta út og vildi ekki að ég fengi rautt. Ég hefði alveg getað fengið rautt nokkrum mínútum seinna, það er auðvelt að vera vitur eftir á. Tarik kemur inn fyrir mig, sem er geggjaður leikmaður. Það hefur ekkert með hann að gera, það var eftir fast leikatriði. Það hefði komið örugglega með mig inná, við vorum með yfirhöndina í leiknum á þeim tímapunkti sem ég fer út af. Ef hann hefði haft mig á vellinum og ég fengið rautt, þá hefði því verið skotið á Sölva af hverju hann tók mig ekki út af. Þú getur alltaf verið vitur eftir á.“