Heimir Guðjónsson verður nýr þjálfari Fylkis samkvæmt Fótbolta.net.
Miðillinn segir að Heimir, sem er á förum frá FH í kjölfar þess að félagið ákvað að framlengja ekki samning hans, verði kynntur til leiks í Árbænum á morgun.
Heimir mun klára tímabilið sem þjálfari FH, en tvær umferðir eru eftir. Tekur hann svo við Fylki, sem olli miklum vonbrigðum í Lengjudeildinni í sumar, ef þetta gengur eftir.
Þá segir Fótbolti.net enn fremur að aðstoðarmaður Heimis, Kjartan Henry Finnbogason, hafi fundað með Lengjudeildarliði Njarðvík, sem er í þjálfaraleit í kjölfar brotthvarfs Gunnars Heiðars Þorvaldssonar.