Það er áhugavert kvöld framundan í Laugardalnum þegar Ísland tekur á móti Frakklandi í undankeppni Evrópumótsins, eftir fína byrjun í riðlinum kom bakslag gegn Úkraínu á föstudag. Liðið fékk á sig fimm mörk á heimavelli, sjaldséð sjón hjá íslensku landsliði.
Tölfræði liðsins með boltann var hins vegar góð og Arnar Gunnlaugsson þjálfari liðsins hamrar á því eftir leikinn. „Ég veit að þetta er besti leikur sem Ísland hefur spilað með bolta frá stofnun landsliðsins, með boltann . Það þarf enginn að trúa mér, það þarf bara að kíkja í tölfræðina, þetta eru allt opinberar tölur. Þá er ég að tala um hátt skrifað lið á FIFA listanum. Það þarf að fara aftur fyrir lið í 100. sæti til að finna sambærilega frammistöðu með boltann,“ sagði Arnar á fréttamannafundi í gær.
En tölfræðin vinnur ekki leiki eins og margur þekkir, þó frammistaðan hafi verið góð voru vankantar í varnarleik liðsins. Úkraína er í sæti 28 á lista FIFA en í gegnum árin hefur íslenska liðið oft náð í úrslit gegn þjóð í þeim styrkleika og ofar.
Orð Arnars eiga svo sannarlega einhvern rétt á sér en sigur íslenska landsliðsins haustið 2012 gegn Noregi var álíka þegar kemur að tölfræði, gríðarlegir yfirburðir íslenska liðsins sem vann 2-0 sigur.
Á gullöld landsliðsins voru þó oft önnur gildi og til gamans skoðum við hér tíu bestu úrslit landsliðsins á þeim tíma. Liðið fékk á sig lítið af mörkum og var ansi klókt að sækja úrslit.
Ísland 2 – 0 Noregur (September 2012)
Tölfræðin ekki ósvipuð og í tapi Ísland gegn Úkraínu á föstudag en niðurstaðan önnur, Kári Árnason og Alfreð Finnbogason með mörkin. Noregur var þarna í 26 sæti á heimslista FIFA en Úkraína er í dag í 28 sæti.
Sviss 4 – 4 Ísland (September 2013)
Sviss sat þarna í 15 sæti á heimslista FIFA, við fórum á útivöll og skoruðum fjögur mörk. Þrenna frá Jóhanni Berg Guðmundssyni og Kolbeinn Sigþórsson með eitt mark.
Ísland 3 – 0 Tyrkland (September 2014)
Þarna voru Tyrkir metnir í svipuðum styrkleika og Úkraína í dag, komu á Laugardalsvöll og voru flengdir 3-0.
Ísland 2 – 0 Holland (Október 2014)
Holland mætti á Laugardalsvöll sem fjórða besta lið í heimi samkvæmt styrkleikarlista FIFA, teknir í bakaríið á Laugardalsvelli. Gylfi Þór Sigurðsson með bæði mörkin
Holland 0 – 1 Ísland (September 2015)
Hollendingar þarna tæpu ári síðan komnir í 12 sæti á styrkleikalista FIFA en það þótti afrek fyrir íslenskt landslið að vinna þar 0-1 sigur.
Portúgal 1 – 1 Ísland (Júní 2016)
Í fyrsta leik á Evrópumóti, þarna var Portúgal talið 8 besta landslið í heimi en við gerðum jafntefli við þá. Birkir Bjarnason sá um að skora markið.
Ísland 2 – 1 England (Júní 2016)
Ellefta besta landslið í heimi á þessum tímapunkti átti ekki séns í öflugt íslenskt landslið.
Ísland 1 – 0 Króatía (Júní 2017)
Þarna sem 18 besta landslið í heimi samkvæmt lista FIFA mætti á Laugardalsvöll og fór heim með 0 stig.
Tyrkland 0 – 3 Ísland (Október 2017)
Tyrkir ekki í sínum hæstu hæðum, í sæti 33 á lista FIFA þarna en að fara á útivöll og vinna þá 0-3 þótti magnað afrek.
Argentína 1 – 1 Ísland (Júní 2018)
Fimmta besta landslið í heimi á þessum tímapunkti mætti Íslandi í fyrsta leik á HM í Rússlandi, niðurstaðan 1-1 jafntefli þar sem Lionel Messi lenti í klóm Hannesar Halldórssonar á eftirminnilegan hátt.