Sverrir Ingi Ingason var magnaður í 2-2 jafntefli Íslands og Frakklands í undankeppni HM í kvöld.
Leikurinn á Laugardalsvelli var spennandi þar íslenska liðið komst yfir en Frakkar komust svo í 2-1. Það var svo Kristian Nökkvi Hlynsson sem jafnaði fyrir okkar menn.
„Gott stig, klárlega. Við sýndum karakter að koma okkur aftur inn í leikinn, við tökum það góða stig,“ sagði Sverrir eftir leik.
Íslenska liðið fékk á sig smá pressu í upphafi síðari hálfleiks og komust Frakkar þá yfir.
„Það gekk vel í fyrri hálfleik, það kemur moment í seinni þar sem þeir herja á okkur. Á móti svona þjóðum þurfa öll smáatriði að ganga upp í 90 mínútur.“
„Að svara eftir föstudaginn var sérstaklega gott.“
Íslenska liðið er nú þremur stigum á eftir Úkraínu í riðlinum þegar tvær umferðir eru eftir.