Ísak Bergmann Jóhannesson var brattur eftir 2-2 jafntefli Íslands og Frakklands í undankeppni HM í kvöld.
Leikurinn á Laugardalsvelli var spennandi þar íslenska liðið komst yfir en Frakkar komust svo í 2-1. Það var svo Kristian Nökkvi Hlynsson sem jafnaði fyrir okkar menn.
„Bara mjög sáttur, sáttur með þennan glugga. Stoltur af liðinu og stoltur af þjálfaranum,“ sagði Ísak við 433.is um leikinn.
Ísak sagði frá því hvernig Arnar tók liðið á fund eftir 3-5 tap gegn Úkraínu á föstudag.
„Hvernig hann brást við, hann tók okkur á tal eftir síðasta leik og sagði að við værum lið sem gæti strítt Frökkum. Við gerðum það í kvöld.“
„Það sat í okkur úrslitin, Arnar sýndi okkur á klippum og glærum hvernig þetta var. Við lærðum af mistökum okkar.“
Ísak segir að íslenska liðinu hafi liðið vel á vellinum í kvöld.
„Okkur leið mjög vel neðarlega á vellinum, að koma til baka er ógeðslega sterkt. Albert og Kristian gera vel, mjög stoltur af liðinu.“
Viðtalið er í heild hér að neðan.