„Bara dugnaður,“ sagði Hákon Arnar Haraldsson, fyrirliði Íslands eftir 2-2 jafntefli gegn Frakklandi í undankeppni HM í kvöld.
Leikurinn á Laugardalsvelli var spennandi þar íslenska liðið komst yfir en Frakkar komust svo í 2-1. Það var svo Kristian Nökkvi Hlynsson sem jafnaði fyrir okkar menn.
„Við vorum allir on it í dag, það þurfa allir að vera 110 prósent til að ná í úrslit gegn svona góðu liði.“
Íslenska liðið fór með 1-0 forystu í hálfleik en lentu aðeins upp við vegg í byrjun þess síðari.
„Okkur leið vel, við vissum hvað við vorum að fara út í. Við ætluðum að pressa ofarlega eða droppa niður, ekki láta það gerast að vera mitt á milli. Leikplanið var mjög gott.“
„Við náðum ekki að halda í boltann í byrjun seinni hálfleiks, þeir kunna að stjórna leikjum. Við vorum aðeins hræddir, við ætluðum að vernda 1-0. Við gerum vel að komast út úr þessu og skora strax og þeir komast yfir.“
Íslenska liðið er nú þremur stigum á eftir Úkraínu í riðlinum þegar tvær umferðir eru eftir.