„Við erum búnir að eiga góðar æfingar og það er spenna, meðbyr, maður finnur fyrir því, uppselt og svona. Tilfinningin er mjög góð,“ segir Aron Einar Gunnarsson fyrir leik Íslands gegn Úkraínu í undankeppni HM annað kvöd.
Aron var meiddur þegar Ísland burstaði Aserbaísjan og tapaði naumlega gegn Frökkum í fyrstu leikjum keppninnar.
„Það var jákvætt. Þetta var góður seinni hálfleikur á móti Aserbaísjan og mikilvægt að ná þessu marki í lok fyrri hálfleiks þar. Svo sýndum við það í Frakkaleiknum að liðið getur spilað tvö mismunandi kerfi og gert það vel.“
Aron er kominn á fullt með Al-Gharafa í Katar. „Mér líður vel, er búinn að spila mikið. Ég er tilbúinn í að leggja mig allan fram eins og maður hefur alltaf gert.“
Hann býst við hörkuleik annað kvöld.
„Við höfum farið vel yfir þá og þeir eru með mikil gæði, einstaklingsgæði og liðið sjálft er vel spilandi. Þeir áttu mikið af færum á móti Aserbaísjan og voru óheppnir að klára ekki þann leik. Við vitum að þeir mæta hérna dýrvitlausir og við getum alveg reiknað með því að það verði æsingur. Það er mikilvægt fyrir okkur að halda ró.“
Ítarlegt viðtal við Aron er í spilaranum.