Fyrrum enski landsliðsframherjinn Emile Heskey átti stolta stund sem faðir á miðvikudagskvöld þegar báðir synir hans spiluðu sinn fyrsta leik fyrir aðallið Manchester City í sama leiknum.
Jaden Heskey (19 ára) og Reigan Heskey (17 ára) komu báðir inn af bekknum í 2-0 sigri City gegn Huddersfield í enska deildarbikarnum.
Jaden, sem gekk til liðs við City aðeins átta ára gamall, skrifaði undir sinn fyrsta atvinnumannasamning fyrir tveimur árum og spilar líkt og faðir hans sem framherji. Hann skoraði meðal annars í úrslitaleik Enska unglingabikarsins gegn Leeds í maí 2024.
Yngri bróðir hans, Reigan, gekk einnig til liðs við City átta ára gamall og hefur vakið mikla athygli. Hann var færður upp í U21-liðið fyrir ári síðan og skoraði þrennu á 22 mínútum í leik gegn Norwich í úrvalsdeild varaliða.
Reigan hefur einnig leikið 10 landsleiki fyrir England U17 og er líkt og bróðir sinn, sóknarmaður.