Það er líklegast að Kevin De Bruyne, leikmaður Manchester City, haldi til Ítalíu í sumar.
De Bruyne er goðsögn hjá City en er á förum eftir tíu frábær ár hjá félaginu. Hefur hann unnið allt sem hægt er að vinna og þar af ensku úrvalsdeildina sex sinnum.
Belginn lék sinn síðasta leik á heimavelli fyrir City í sigri á Bournemouth í gær og eftir leik var greint frá því að stytta af honum muni rísa fyrir utan Etihad-leikvanginn.
Samningur De Bruyne er að renna út og getur hann því valið um áfangastað í sumar og er talið að það verði Napoli.
Veðbankar telja líklegast að hann endi á Ítalíu og er Napoli, sem getur tryggt sér Ítalíumeistaratitilinn með sigri á Cagliari annað kvöld, líklegast til að hreppa hann.
Lið í Bandaríkjunum og Sádi-Arabíu koma einnig til greina og þá hafa einhverjir orðað De Bruyne við Aston Villa og Liverpool.