
Viðræðum miðar áfram hjá Manchester United og Paris Saint-Germain varðandi Manuel Ugarte, miðjumann síðarnefnda félagsins. Sky Sports fjallar um málið.
Erik ten Hag er á eftir miðjumanni og hafði til að mynda áhuga á Sander Berge hjá Burnley. Sá fór hins vegar til Fulham.
Ugarte var búinn að semja um eigin kjör við United í síðasta mánuði en félögin náðu að lokum ekki saman.
Viðræður eru hins vegar farnar af stað á ný og er hófleg bjartsýni hjá öllum aðilum að skiptin gangi í gegn fyrir gluggalok um mánaðarmótin.
Bæði félög vonast til þess að United geti keypt Ugarte af PSG en ef ekki kemur lán með kaupskyldu einnig til greina.