Fabio Capello, fyrrum landsliðsþjálfari Englands, hefur ekkert nema góða hluti að segja um Jude Bellingham sem er einn besti leikmaður heims í dag.
Það ætti ekki að koma mörgum á óvart en Bellingham hefur átt frábært tímabil á Spáni eftir að hafa samið við Real Madrid.
Enski landsliðsmaðurinn vann Meistaradeildina með Real í gær er liðið mætti Dortmund í úrslitaleik á Wembley.
Real hafði betur 2-0 en þar spilaði Bellingham gegn sínu fyrrum félagi frá Þýskalandi.
,,Hann er frá annarri plánetu! Hann er með gæði en líka svo mikinn andlegan styrk,“ sagði Capello.
,,Það er gríðarlega góður eiginleiki fyrir hans félagslið. Hann hefur komið mér verulega á óvart því venjulega eiga Englendingar í vandræðum með því að fóta sig í spænsku eða ítölsku deildinni.“
,,Það var örugglega því hann kom beint frá Þýskalandi, Bellingham var byrjaður að skilja menninguna erlendis.“