Abel Ferreira, þjálfari Palmeiras í Brasilíu, ætlar að ræða við forseta félagsins, Leila Pereira, um að halda Messinho hjá félaginu.
Leikmaðurinn ber nafnið Estevao Willian en er oft kallaður Messinho og er talinn gríðarlega efnilegur. Hann spilar á vængnum og er 17 ára gamall.
Chelsea er talið hafa boðið 55 milljónir evra í leikmanninn en um er að ræða þriðja tilboð liðsins í strákinn.
Þrátt fyrir ungan aldur spilar Messinho með aðalliði Palmeiras en Ferreira er viss um að það sé rangskref að fara til Englands svo snemma.
,,Ég ætla að biðja Leila um að selja hann ekki. Faðir leikmannsins, ég og hann verðum allir leiðir ef það gerist,“ sagði Ferreira.
,,Leyfið honum að spila hérna þar til 2027. Þetta er tegund af leikmanni sem ég hef aldrei séð áður. Strákurinn verst, sækir og sannar sig í hverjum einasta leik.“