Xabi Alonso útskýrir í viðtali við TNT Sports í dag hvers vegna hann ákvað að hafna Bayern Munchen og Liverpool og vera áfram hjá Bayer Leverkusen.
Alonso er að gera frábæra hluti með Leverkusen og svo gott sem búinn að vinna þýsku úrvalsdeildina.
Hann var efstur á blaði bæði Bayern og Liverpool sem eru í stjóraleit fyrir sumarið. Alonso tilkynnti svo hins vegar fremur óvænt að hann ætlaði sér að vera áfram hjá Leverkusen.
„Það eru margar ástæður fyrir því að ég ákvað að vera áfram. Við erum búnir að byggja upp lið og það er frábær andi hérna,“ sagði hann meðal annars þar.
„Þetta tímabil hefur verið stórkostlegt og við viljum halda áfram að gera þetta saman. Mér líður eins og hluta af verkefninu. Mér fannst þetta ekki rétta tímasetningin til að fara.“