Manchester United tekur á móti Liverpool í stórleik ensku úrvalsdeildarinnar á sunnudag. Búið er að velja dómara á leikinn.
Leikurinn gæti haft mikið að segja í toppbaráttu ensku úrvalsdeildarinnar en Liverpool er á toppnum sem stendur, rétt á undan Arsenal og Manchester City.
Það verður Anthony Taylor sem dæmir leik United og Liverpool á Old Trafford. Hann og Jurgen Klopp, stjóri Liverpool, hafa eldað grátt silfur saman.
Taylor dæmir gjarnan leiki milli „stóru sex“ liðanna í ensku úrvalsdeildinni og dæmdi hann til að mynda leik City og Arsenal um síðustu helgi.
Klopp er þó ekki alltaf sáttur með hann og baunaði hann á Taylor á síðustu leiktíð eftir brot Bernardo Silva, leikmanns City, á Mohamed Salah. Fór það svo að Taylor gaf Þjóðverjanum rauða spjaldið.
Þá brjálaðist Klopp út í Taylor í tapi Liverpool gegn Arsenal snemma á þessari leiktíð.
Það verður áhugavert að sjá hvað gerist á sunnudaginn. Leikurinn hefst klukkan 14:30.