Jurgen Klopp, stjóri Liverpool, var spurður út í meiðsli sem Mohamed Salah varð fyrir í leik Egyptalands gegn Gana í Afríkukeppninni í gær.
Liðin gerðu 2-2 jafntefli en Salah fór meiddur af velli undir lok fyrri hálfleiks. Hélt hann um aftanvert lærið á sér.
Klopp og stuðningsmenn eru án efa áhyggjufullir en nógu slæmt var að missa Salah í Afríkukeppnina í nokkrar vikur.
„Við vitum ekkert. Ég talaði við hann í gærkvöldi og við fáum að vita nánar hver staðan er. Hann fann fyrir einhverju og við vitum að Mo fer mjög sjaldan út af meiddur, þannig þetta er klárlega eitthvað,“ sagði Klopp um málið.
Salah hefur verið magnaður fyrir Liverpool á leiktíðinni og er kominn með 14 mörk og 8 stoðsendingar í ensku úrvalsdeildinni.