Ísland er 1-0 undir gegn Lúxemborg í hálfleik. Liðin mætast í undankeppni EM 2024 og þarf Ísland nauðsynlega á sigri að halda.
Ísland lenti undir strax á 8. mínútu leiksins þegar heimamenn fengu vítaspyrnu. Spilamennska Strákanna okkar hefur ekki verið upp á marga fiska.
„Þetta virkar eins og við höfum ekki verið klárir í leikinn. Það er eins og leikurinn hafi verið á forsendum Lúxemborgar,“ segir Lárus Orri Sigurðsson sérfræðingur í setti Stöðvar 2 Sport í hálfleik.
Hörður Björgvin Magnússon hefur alls ekki átt góðan leik í vörninni hingað til.
„Hörður er ekki klár í leikinn. Fókusinn er ekki til staðar og hann er ekki mættur til leiks.
Ég veit ekki hvort það er spennustigið eða annað en við verðum að girða okkur í brók. Það er eins og við þorum ekki að spila boltanum, þorum ekki að finna menn í lappir,“ segir Lárus enn fremur.
Kári Árnason er með honum í setti.
„Þetta er bara galið lélegt. Þessi móment sem við erum að búa til fyrir þá. Hörður byrjar leikinn rosalega sloppy. Það er eins og það sé ekki kveikt á honum,“ segir hann meðal annars.