Ung stúlka varð fyrir harkalegu áreiti í vikunni er Real Madrid og Atletico Madrid spiluðu í La Liga en leikurinn fór fram á miðvikudag.
Um er að ræða grannaslag í spænsku úrvalsdeildinni en Atletico hafði betur í viðureigninni, 3-1.
Emilio Butragueno, goðsögn Real, hafði boðið þessari ungu dömu á leikinn og fékk hún að horfa á viðureignina á svokölluðu ‘VIP’ svæði.
Hún var klædd í treyju Real Madrid og varð fyrir miklu áreiti utan vallar áður en flautað var til leiks.
Stúlkan er dökk á hörund og varð fyrir kynþáttaníð en hún mætti á leikinn ásamt móður sinni og frænku. Hún hafði aldrei upplifað annað eins á sinni ævi.
The Athletic greinir frá þessu en þetta er ekki í fyrsta sinn sem stuðningsmenn Atletico gera sig seka um rasisma.
Lögreglan er nú að rannsaka málið en Vinicius Junior, leikmaður Real, varð fyrir miklu áreiti af sömu stuðningsmönnum á síðustu leiktíð.