Þór Sigurgeirsson, bæjarstjóri Seltjarnarnesbæjar, segir að bæjaryfirvöldum sé fullkunnugt um að aðstaðan á Vivaldi-velli Gróttu sé ófullnægjandi og að gervigrasið á vellinum sé komið á tíma. Vilji bæjarstjórnar standi til þess að bæta úr þessu en að forgangsraða þurfi fjármunum og því verði einhver töf á því að ráðist verði í framkvæmdir.
„Við erum að reka bæjarfélag þar sem grunnþjónustan er í algjörlega í forgangi. Við stöndum í stórræðum þessa dagana með viðgerðir á skólahúsnæði. Við erum að fara að byggja leikskóla svo dæmi séu tekin. Við vildum sannarlega geta gert allt saman á sama tíma en við verðum einfaldlega að forgangsraða verkefnum,“ skrifar Þór í umræðum á íbúahópi Seltirninga.
Eins og 433 greindi frá fyrr í dag hafa nokkrir leikmenn knattspyrnudeildar Gróttu sent bæjaryfirvöldum opið bréf þar sem bent er á slæma aðstöðu á Vivaldi-velli félagsins og þá sér í lagi alvarlegt ástand gervigrassins sem er orðið sjö ára gamalt og orðið beinlínis hættulegt. Tveir leikmenn hafa slitið krossbönd á vellinum í ár og grasið er sagt hafa misst rétta lögun sína og það sé þurrt þegar ekki rignir af því að vökvunarbúnaður er ekki til staðar.
„Við sem æfum þarna daglega teljum að það hefði átt að endurnýja grasið árið 2021 eða 2022. Nú er 2023 komið langt á leið og það sem við heyrum er að það komi ekki nýtt gras fyrr en KANNSKI árið 2025. Það slitnuðu tvö krossbönd á vellinum í byrjun tímabils 2022 og er tímaspursmál hvenær sambærileg meiðsli munu líta dagsins ljós af völdum gervigrassins. Það tekur um 12 mánuði að jafna sig á krossbandsslitum. Það ætti að gera allt til að fyrirbyggja svona alvarleg meiðsli. Bráðefnilegir ungir leikmenn spila í báðum meistaraflokkum Gróttu og að bjóða þeim upp á svona lélegan völl hjálpar framförum þeirra ekki,“ skrifuðu leikmennirnir.
Sjá einnig: Senda opið bréf til bæjaryfirvalda – „Við óskum eftir svörum“
Þá sé Vallarhúsið sjálft löngu sprungið og sjá megi iðkendur skipta um föt og skó fyrir utan húsið eða á göngum þess þá daga sem leikir eru í gangi.
„Þetta er alls ekki Gróttu sæmandi og þarf að finna lausnir á þessum vanda strax og grípa til aðgerða áður en það verður einfaldlega um seinan,“ skrifuðu leikmennirnir og kölluðu eftir svörum.
Talsverð umræða skapaðist um bréf leikmannanna í íbúahóp bæjarins og þar steig Þór bæjarstjóri fram og lýsti áætlunum meirihlutans.
„Við erum með í okkar verkplönum að endurnýja gervigrasið 2025 – þetta hefur komið fram á fundi með stjórn knattspyrnudeildar Gróttu. Við erum einnig að skoðta að breyta tækjageymslu í búningsklefa og færa geymsluna suður fyrir stúkuna og grafa hana þar inn í brekkuna. Við erum ekki að fara að byggja yfir litla völlinn að sinni. Við væntum samtarfs við KR þegar og ef knatthús rís. Þeir hafa boðið tíma þar. Það er glatað að einhver sé að klæða sig úti og meiðsli eru alltaf skelfileg,“ skrifaði Þór.
Sagði hann að bæjarfulltrúa standa þétt við félagið og vilja því allt hið besta.
„Aðstaðan mun batna en því miður er ekki mögulegt að gera allt strax,“ skrifaði Þór.