Íþróttavikan heldur áfram að rúlla á 433.is og í Sjónvarpi Símans en nýr þáttur kemur út alla föstudaga. Helgi Fannar Sigurðsson og Hrafnkell Freyr Ágústsson hafa umsjón með þættinum og að þessu sinni var gesturinn Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings.
Mikel Arteta vakti athygli á dögunum þegar hann ræddi markvarðastöðu Arsenal. Hann hefur byrjað með David Raya í markinu í undanförnum leikjum á kostnað Aaron Ramsdale en hann telur eðlilegt að rótera markvörðum.
„Ég er sammála og ósammála honum. Þetta eru stórfurðulegir náungar þessir markmenn,“ segir Arnar léttur.
„Ég skil vel að vera með einn afgerandi númer eitt en góðan varamarkvörð sem veit að hann er númer tvö. Að mínu mati er það betri leið en að rótera því þetta eru sérstök fyrirbæri þessir markmenn.“
Arteta sagði á dögunum að hann sjái eftir því að hafa ekki skipt um markvörð í miðjum leik í einhverjum leikjum.
„Það var bæði snarbilað komment en líka geggjað komment. Ég hugsaði um hvort hann væri snillingur eða brjálæðingur en í raun og veru eru allir snillingar smá brjálæðingar,“ segir Arnar.
Umræðan í heild er hér að neðan.